A A A

Hjallastefnan fer vel af stað

Allir nemendur á efsta- og miðstigi Tálknafjarðarskóla fá iPad til afnota í kennslu.
Allir nemendur á efsta- og miðstigi Tálknafjarðarskóla fá iPad til afnota í kennslu.

„Fyrsta vikan hefur gengið dásamlega, enda er hér gríðarlega samheldinn hópur starfsmanna sem keppist við að gera góðan skóla enn betri,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri Tálknafjarðarskóla. Margrét Pála tók við skólastjórn í skólanum fyrir skólaárið, en hún er upphafsmaður Hjallastefnunnar. Tálknafjarðarskóli er fyrsti skólinn á landinu sem styðst við Hjallastefnuna frá leikskólaaldri og út gagnfræðiskóla. Í skólanum eru 78 börn. „Þau eru öllum aldri, frá sextán mánaða upp í sextán ára,“ segir Margrét Pála.

Að sögn Margrétar verður er breytingin á skólastarfinu talsverð frá því sem áður var, en þó ekki ein mikil og margir ætla. „Í grunni er 80 prósent af öllu skólastarfi eins og það var. Við byggjum okkar starf á aðalnámskrám grunnskólanna og þeirri viðurkenndu hugmyndafræði sem öll vesturlönd sameinast um. Svona 20 prósent er svo okkar eigin hugmyndafræði.“

Hjallastefnan styðst við sérstaka kynjanámskrá, sem unnið er kerfisbundið eftir allt skólaárið. Margrét Pála segir það mikinn misskilning að uppskipting bekkja eftir kynjum sé aðal hugmyndafræði Hjallastefnunnar. „Hún er alls ekki númer eitt. Við leggjum hinsvegar mikla áherslu á kynjameðvitund. Börnin sjá sjálf um að skipta sér upp í hópa eftir kynjum, bæði í frjálsu starfi og skólastarfi. Það hafa viðurkenndar rannsóknir sýnt fram á. Í Tálknafjarðarskóla er verkefni okkar að mæta bæði drengjum og stúlkum á jafnan hátt, í jafn fámennum skóla,“ segir Margrét Pála, en hún hefur ekki verið skólastjóri í fámennari skóla.

„Hjallastefnan leggur einnig mikið upp úr lýðræði og sköpun og eftir því sem börnin verða eldri koma þeir meira til með að móta kennsluna sjálf. Við forðumst bókstýrða kennslu og notum aðeins kennslubækur og þegar þess þarf sérstaklega. Við vinnum með opin og skapandi kennslusvið,“ segir Margrét, en mikið er lagt upp úr jákvæðum aga og jákvæðum samskiptum í Tálknafjarðarskóla. „Það er eitt okkar aðalsmerkja. Við erum einnig mjög tæknivædd,“ segir hún, en allir nemendur á efsta stigi og miðstigi hafa fengið iPad til afnota í skólastarfinu.

Margréti líkar lífið á Tálknafirði og segir heimamenn hafa tekið sér vel. „Nánast allir Tálknfirðingar hafa tekið mér og Hjallastefnunni opnum örmum, og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Auðvitað hafa einhverjir efasemdir þegar breytingar eiga sér stað, en því vona ég að skólinn og Hjallastefnan fái hér tækifæri til að sanna sig og að allir verði sáttir,“ segir Margrét, en sveitarstjórn Tálknafjarðar leitaði til Margrétar og sóttist eftir hennar þjónustu í vor. „Skólinn og sveitarfélagið vildi fá festu í skólastarfið hér og ákveðna hugmyndafræði. Mikil hreyfing hefur verið á starfsfólki hér og óvissa ávalt ríkt um næsta ár.“

„Við vonumst til að vera hér áfram, og sem lengst. Eins lengi og Tálknfirðingar vilja Hjallastefnuna verður hún hér. Tálknafjörður er fyrsti staðurinn sem þorir að innleiða Hjallastefnuna á öllum stigum skólans, og þeim ber að þakka fyrir það hugrekki.“

Frétt tekin af: bb.is


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón