A A A

Hollvinir Dunhaga

Stofnfundur Hollvina Dunhaga verður haldinn sunnudaginn 29. júlí kl. 14.00 í Dunhaga, Tálknafirði í tengslum við Tálknafjör.
 

Dagskrá stofnfundar

Skýrsla undirbúningshóps

Lög félagsins rædd og samþykkt

Kosning stjórnar og skoðunarmanna

Árgjald félagsins ákveðið

Önnur mál
 

Allir velunnarar Dunhaga eru boðnir velkomnir á stofnfundinn.

Þeir sem ekki geta mætt á fundinn geta gerst félagar með því að senda tölvupóst á netfangið dunhagihollvinir@gmail.com eða hringt í Kristjönu Andrésdóttur í síma 861-7077,  Aðalstein Magnússon í síma 861-2633 og Lilju Magnúsdóttur í síma 895-2947.
 

Áhugasamir geta líka skráð sig sem félaga á fésbókarsíðunni Dunhagi Hollvinir. Þar verður  líka haldið úti upplýsingum um starfsemi félagsins og þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni í endurbyggingu hússins auk þess sem þar er að finna myndir og frásagnir varðandi sögu hússins. Drög að lögum félagsins verða kynnt með dreifibréfi í hús í Tálknafirði fyrir Tálknafjörshelgina ásamt kynningu á fésbókarsíðunni og einnig munu eintök liggja frammi sem víðast til að fólk geti kynnt sér lögin og tilgang félagsins fyrir stofnfundinn.
 

Þeir sem vilja vinna að endurbyggingu Dunhaga með því að gefa kost á sér í störf fyrir félagið eru hvattir til að hafa samband við undirbúningshópinn fyrir stofnfundinn.
 

Unnið er að stofnun félagsins, endurbyggingu og viðhaldi hússins í nánu samstarfi og með samþykki Kvenfélagsins Hörpu sem er eigandi Dunhaga.

Drög að samþykktum fyrir Hollvini Dunhaga í Tálknafirði. (.pdf)

 

Undirbúningshópurinn

Kristjana, Alli og Lilja

 

 

Samkomuhúsið Dunhagi í Tálknafirði

 

Dunhagi á sér langa og merka sögu sem stúkuhús, íbúðarhús, samkomuhús, félagsheimili og  ballstaður auk þess sem þar hafa verið haldnar hverskonar veislur, spilakvöld, vísnakvöld, leiksýningar, danskennsla, fundir og allt annað sem lítið samfélag þarf á húsnæði að halda til að þrífast á félagslegu og menningarlegu sviði.
 

Á fyrstu árum hússins voru íbúðir á neðri hæð hússins þar sem margir byrjuðu sinn búskap meðan verið var að ljúka húsbyggingum þeirra eða beðið var eftir öðru húsnæði. Á árunum fram undir 1960 gistu í Dunhaga nemendur í sundnámi úr allri sýslunni en þá var sundlaugin í Tálknafirði eina laugin þar sem kennt var sund. Í lok sundnámskeiðanna voru síðan haldin Sundpróf sem fræg hafa verið í minningu þeirra sem nutu. Þá komu foreldrar og aðrir til að vera við sundpróf barna sinna og síðan var slegið upp hátíð, farið í leiki og  íþróttir að ógleymdum böllunum.
 

Eftir að Dunhagi komst í eigu Kvenfélagsins Hörpu 1962 hafa kvenfélagskonur haft veg og vanda af rekstri hússins og nýtt sér það í þágu fjáröflunar fyrir starfsemi sína á margvíslegan hátt, Ófá böllin hafa verið haldin í Dunhaga, þorrablót, árshátíðir, spilakvöld og ótal margar aðrar skemmtanir. Dunhagi er órjúfanlegur hluti af sögu Tálknafjarðar og fólksins sem þar býr og hefur búið.
 

Nú er ástand hússins hins vegar farið að láta á sjá sökum aldurs og því orðin brýn nauðsyn á endurbyggingu þess og lagfæringum utan húss og innan. Ber þar hæst rakaskemmdir vegna leka með skorsteini og útfrá gluggum en einnig er mikil þörf á að endurbæta neyðarútgang hússins og gera hann þannig úr garði að uppfylli allar kröfur þar að lútandi.

Slíkar viðgerðir kosta mikla fjármuni sem Kvenfélagið Harpa ræður ekki yfir. Því er nú unnið að stofnun Hollvinasamtaka Dunhaga þar sem ætlunin er að fá Tálknfirðinga og aðra, heima og heiman til að leggja Dunhaga lið og safna fé til endurbóta á húsinu.
 

Framtíðarmarkmið með nýtingu hússins er að það verði áfram menningarmiðstöð okkar Tálknfirðinga sem við getum nýtt til þeirrar menningarstarfsemi sem hugur stendur til hverju sinni. Ekki er ætlunin að nýta þetta hús sem félagsheimili þar sem allar stórar skemmtanir eru haldnar í Íþrótta og félagsheimili Tálknafjarðar, heldur verða í Dunhaga minni samkomur, skemmtanir og sýningar af öllu tagi. Því verður starfsemi áfram í húsinu eftir því sem viðgerðir leyfa svo sem spilakvöld, vísnakvöld, páskasamkomur, myndasýningar, fundir og önnur menningarstarfsemi svo sem verið hefur mjög mörg undanfarin ár.
 

Hjálpumst að koma okkar kæra Dunhaga í gott ástand aftur svo við og komandi kynslóðir megum njóta þessa húss um langa framtíð.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón