A A A

Hugleiðingar um menningu launaleyndar

Hugrún R. Hjaltadóttir
Hugrún R. Hjaltadóttir
1 af 2

- Grein eftir Hugrúnu R. Hjaltadóttur

Á Jafnréttisstofu fáum við símtöl frá konum sem uppgötva að eftir áralangt starf hjá vinnuveitanda hefur karl á næstu skrifstofu allt að helmingi hærri laun en þær, fyrir sama starf. Baráttan fyrir sömu launum fyrir sama starf hefur staðið í yfir 100 ár og undanfarna áratugi hefur árangurinn látið bíða eftir sér. Lög um sömu laun fyrir sömu störf voru samþykkt á Alþingi 1961 og þá var talið að það yrði frekar létt verk að jafna launin. Í dag vitum við betur.

Í 19. gr. jafnréttislaga segir að „konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.“
Í sömu grein segir jafnframt: „starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo“. Þetta þýðir að starfsfólk má tala um laun sín við aðra ef þeim svo sýnist. Þetta þýðir einnig að allir samningar um launaleynd milli atvinnurekanda og launþega eru ekki gildir samningar. Með hliðsjón af 30. grein sömu laga, þar sem fram kemur að óheimilt sé að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögunum, er ljóst að þó svo skrifað hafi verið undir slíkan samning þá er hann í raun ógildur. Þess vegna liggur það skýrt fyrir að við höfum rétt til að ræða laun okkar ef við viljum.

Þegar við veltum fyrir okkur hvað séu sanngjörn laun viljum við yfirleitt að hlutir eins og menntun og starfsreynsla séu teknir inn í myndina en að aðrir þættir, eins og kyn, kynhneigð eða trúarbrögð, hafi ekki áhrif þar á. Við ræðum hins vegar sjaldan um laun okkar á milli og það getur gert okkur erfitt um vik að meta hvað við teljum eðlileg og sanngjörn laun fyrir tiltekin störf.

Fram til ársins 2008 var launagreiðendum heimilt að gera ráðningarsamninga þar sem tilgreint var að laun væru trúnaðarmál og þó starfsfólki sé nú ávallt heimilt að ræða launin sín þá ríkir hér enn menning launaleyndar. Við erum alltaf hálffeimin við að ræða launin okkar á milli, eins og við séum að gera eitthvað sem ekki má eða jafnvel brjóta trúnað við vinnustaðinn. Ein af ástæðum þess er að margir telja laun vera persónulegt mál. Við erum að ræða það hvað við fáum greitt fyrir tímann okkar, hvers virði við erum sem starfskraftar. Það getur verið erfitt að ræða svo persónulegan hlut, sérstaklega ef í ljós kemur að okkar framlag er ekki metið jafn verðmætt og annarra.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands er munur á atvinnutekjum kynjanna töluverður en konur voru með 68% af atvinnutekjum karla árið 2009. Hlutfall kvenna af launum karla hefur þó aukist því á árunum 2003-2007 var það um 61%. Það breytir því þó ekki að enn er langt í land. Ef við tökum inn í myndina ástæður sem taldar eru málefnalegar varðandi launamun (aldur, menntun, starfsaldur og vinnutími) benda endurteknar rannsóknir til þess að kynbundið launamisrétti sé um 16% á íslenskum vinnumarkaði en hann er mismunandi eftir vinnustöðum, starfsstéttum og búsetu. Könnun Félagsvísindastofnunar árið 2008 sýndi allt að 38% kynbundinn launamun á landsbyggðinni. Það eru ekki góð skilaboð til kvenna. Hvað er það sem veldur þessum launamun? Eru þetta meðvitaðar ákvarðanir eða er þetta eitthvað sem gerist bara óvart? Flest fólk er sammála um að kynbundinn launamunur sé óþolandi og ætti ekki að líðast, en samt er hann til. Kannanir sýna að flest okkar telja réttlæti ríkja á okkar vinnustað. Sú hugmynd byggist á því trausti sem við berum til vinnuveitanda um réttsýni og sanngirni. Það hefur hinsvegar komið í ljós að vinnustaðir eru ekki allir traustsins verðir. Ef launaákvarðanir byggja ekki á ákveðnu gegnsæju kerfi eða það hefur aldrei verið gerð könnun á kynbundnum launamun á vinnustaðnum er líklegt að launamunur sé til staðar. Fyrrnefnd rannsókn Félagsvísindastofnunnar sýnir að launamunur kynjanna er minni á vinnustöðum þar sem ekki ríkir launaleynd. Menning launaleyndar er því líkleg til þess að viðhalda misrétti í launum, því eins og við vitum er margt sem þrífst í þögninni.

Í rauninni ætti að vera sjálfsagt og eðlilegt að launamál séu uppi á borðinu. Við viljum að launaákvarðanir séu réttlátar og gegnsæjar. Við viljum að þær byggi á málefnalegum grunni. Það er eðlilegt að við séum ekki öll á sömu launum á sama vinnustað en ástæður þess eiga að vera skýrar en ekki launungarmál. Þá er því ósvarað hvers vegna vinnuveitendur vilja fara leynt með launamálin. Getur það verið vegna þess að þeir hafa eitthvað að fela?
Hvernig ætlum við að ná að vinna á launamun kynjanna og gera jafnrétti að veruleika ef við þorum ekki að ræða laun? Leggjum öll spil á borðið og vinnum okkur út úr menningu launaleyndar. Þannig getum við metið okkur sjálf, borið okkur saman við aðra og verið viss um að við séum metin til jafns við fólk í svipaðri stöðu.

                                                                                                                 Hugrún R. Hjaltadóttir

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón