A A A

Líflegur og skemmtilegur íbúafundur

Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir skemmtir sér yfir niðurstöðum í sínum hóp
Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir skemmtir sér yfir niðurstöðum í sínum hóp
1 af 5

Að loknum löngum vinnudegi mættu eitilharðir Tálknfirðingar á íbúafund í Tálknafjarðarskóla til að leggja línurnar fyrir næstu fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Eins og oft vill verða var pláss fyrir fleiri á fundinum og Jenný matráður var tilbúin með miklu meiri kjötsúpu en þörf var fyrir, umræður voru þó ákaflega líflegar og jákvæðar. Eftir kynningu sveitarstjóra á stöðu mála fór Lilja Magnúsdóttir yfir fyrirkomulag vinnu við nýtt aðalskipulag og eftir það einhentu fundarmenn sér í að hesthúsa dýrindis kjötsúpu og heimabakað brauð. Saddir og sælir fundargestir settust svo við hópavinnu og þar dró enginn af sér. Sex hópar voru skipulagðir og margar góðar hugmyndir litu dagsins ljós.
 

Í hópnum sem fjallaði um atvinnu og húsnæðismál var tjaldsvæðið mönnum hugleikið enda eitt af „fjöreggjum“ svæðisins. Almennt er talið að fjölbreytni í atvinnu megi bæta og hitaveitunni þarf að fylgja betur eftir.
 

Í fræðslumála hópnum var einróma ánægja með viðurgjörning barna í skólanum og sú nýbreytni að bjóða upp á jóga vakti líka lukku. Prófaleysi var líka hampað eins og stungið var upp á símaleysi. Lagt var til að kenna krökkunum meira um fjármál, þó ekki væri nema að þau geti lesið og skilið launaseðlana sína. Poppa þarf upp skólalóðina og hugmynd um að leyfa heimamönnum að spreyta sig í hönnun.
 

Í íþrótta og æskulýðsmálahópnum var einróma ánægja með góða þjónustu í íþróttahúsinu, rúman opnunartíma og góða nýtingu. Bæta þarf ýmislegt í vinnuskólanum og í félagsmiðstöðinni, til dæmis að halda fundi með foreldrum, stofnun ungmennaráðs o.fl. Kallað var eftir stefnu í forvarnarmálum.
 

Í umhverfismálahóp var flokkun sorps mönnum hugleikin, þó sérstaklega flokkun lífræns úrgangs. Hvetja skal til hreinsunar á lóðum og stofna til sameiginlegs vinnudags að vori í tiltekt í þorpinu. Grisja þarf stórar aspir í landi sveitarfélagsins. Almenn ánægja var með vinnu verktaka í sumar í slætti og hreinsun opinna svæða.
 

Umræður í hópi um sameiningar sveitarfélaga voru líflegar og hressandi og öllum möguleikum velt við , í óformlegri könnun innan hópsins voru tveir sem vildu norður-suður (Tálknafjörður, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur) sameiningu og tveir sem vildu sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar, þar voru hins vega fimm alfarið á móti. Sjö voru aftur á móti heitir fyrir sameiningu Vestfjarðarkjálkans í eitt sveitarfélag.
 

Með handauppréttingu meðal allra fundarmanna fóru leikar svona:

Allur kjálkinn = 20 stig

Tálknafjörður, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur = 18 stig

Tálknafjörður og Vesturbyggð = 12 stig

Sveitarfélagið Breiðafjörður = 1
 

Hugmyndir um aðrar samsetningar eins og Tálknafjörð, Vesturbyggð og Reykhólahrepp, með eða án, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps fengu engin atkvæði.
 

Kærar þakkir fyrir frábæran fund

Bryndís Sigurðardóttir sveitarstjóri

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón