A A A

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps ályktar um samgöngumál

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps gerði eftirfarandi ályktun á fundi sínum sem fór fram 2. febrúar 2022:

 

Á sama tíma og Vestfirðir eru auglýstir sem einn af eftirsóknarverðustu áfangastöðum heimsins sumarið 2022, þá eru samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum ónýtir og að helstu náttúruperlum Vestfjarða, eins og Látrabjargi og Rauðasandi, liggja úr sér gengnir malarvegir. Samráðsnefnd leggur áherslu á að við endurskoðun samgönguáætlunar verði samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum bættir en svæðið hefur setið á hakanum um áratugaskeið þegar kemur að vegaframkvæmdum. Þrátt fyrir að framlög til vegaframkvæmda á Vestfjörðum í heild sinni hafi aukist þá hafa sunnanverðir Vestfirðir setið eftir og með þeim miklu umsvifum sem nú hafa orðið í atvinnulífi á svæðinu og mikilli fjölgun íbúa eru margir vegkaflar á svæðinu óboðlegir allt árið um kring, m.a. vegna viðhaldsskorts og skorti á framlögum til vetrarþjónustu. Sem dæmi um þá alvarlegu stöðu sem nú er á samgönguinnviðum á sunnanverðum Vestfjörðum þá er vegurinn um Mikladal ónýtur, vegurinn siginn og vegaxlir illa farnar. Þá hafa síðustu 3 mánuði orðið fjórar bílveltur á veginum um Mikladal, en vegakaflinn er fjölfarnasti vegur á Vestfjörðum. Mikilvægt er því að tryggja viðunandi framlög til viðhalds og þjónustu ásamt því að framlag verði veitt til að hefja án tafar rannsóknir og undirbúning vegna jarðgangagerðar undir Mikladal og Hálfdán.

 

Einnig verði í samgönguáætlun mælt fyrir um verulega aukin framlög til Vegagerðarinnar til að sinna nauðsynlegri vetrarþjónustu og lengja þjónustutíma til að bregðast við aukinn umferð m.a. þungaflutninga sem og að tryggja vetrarþjónustuna á þeim leiðum sem framkvæmdir standa nú yfir á, s.s. á Dynjandisheiði. Þá verði gert ráð fyrir framlagi til endurnýjunar ferjunnar Baldurs sem siglir um Breiðafjörð og þar með tryggt öryggi farþega sem og greiðar samgöngur frá og til sunnanverðra Vestfjarða allt árið um kring.

 

Þá verði framkvæmdum m.a. við Bíldudalsveg af Dynjandisheiði og ofan í Arnarfjörð flýtt og þar tryggð vetrarþjónusta. Einnig verði veitt framlag í að bæta vegkafla frá Bíldudalsflugvelli og að þorpinu á Bíldudal, en vegurinn er ónýtur, vegaxlir illa farnar og vegurinn einbreiður. Þá verði áfram hugað að viðhaldi Bíldudalsflugvallar og veitt framlag til að bæta aðflug m.a. í myrkri vegna sjúkraflugs. Samráðsnefnd leggur einnig áherslu á að tryggð verði framlög í hafnarbótasjóð til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum við hafnarmannvirki sveitarfélaganna, m.a. til að bregðast við aukinni atvinnustarfsemi í höfnum sveitarfélaganna tveggja sem tilkomin eru vegna aukinna umsvifa í fiskeldi og tengdum atvinnugreinum.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón