A A A

Samræða betri en samræðuleysi

Gott er til þess að vita að blóðið rennur enn í Íslendingum eins og fram kom á fundum mínum í Bjarkarlundi og á Pareksfirði í Vesturbyggð í gær. Ekkert hef ég við það að athuga að menn gangi af fundi til að leggja áherslu á að málin þurfi ekki frekari umræðu og að þeirra afstaða hafi ekki haggast og muni ekki haggast! Ef þetta er afstaða manna þá er ekkert við það að athuga að hún komi fram með afgerandi hætti. Betri finnst mér þó vera umræðan en umræðuleysið ef menn raunverulega vilja þoka málum fram á við.

Í þessari umræðu þarf að hafa í huga að heimurinn stendur ekki óhaggaður. Hafa þarf hliðsjón af breytingum sem eiga sér stað og eru að eiga sér stað.

Ég hef sett málin upp með þessum hætti: Hluta Vestfjarðavegar þarf að bæta verulega.
1) Máli skipir að úr þessu verði bætt eins fljótt og auðið er. Sérfræðingar í samfélagsmálum benda á að erfiðleikar í samgöngum stefni byggð á sunnanverðum Vestfjörðum beinlínis í hættu.
2) Ríkissjóður er tómur. Dýrar lausnir ganga síður nú en áður.
3) Fyrri tillögur hafa ekki staðist umhverfismat og þeim verið hafnað fyrir dómstólum. Það þýðir líka að sambærilegum lausum og þær sem hafnað hefur verið mun verða vísað inn í langt ferli með óvissri niðurstöðu.

Í ljósi þessa lagði ég til að hraðað yrði vegaumbótum á Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi sem eru nú mestir farartálmar á Vestfjarðavegi og þessum framkvæmdum forgangsraðað fram fyrir vegabætur á leiðnni frá Eiði við Vattarfjörð að Þverá í Kjálkafirði, 16-20 kílómetra leið, sem kostar að mati Vegagerðarinnar 3.000 m. kr. og er nú að komast í útboð.
Þessu hafa sveitarstjórnamenn á svæðinu hafnað og krafist láglendisvegar. Ég skýrði frá því á fundunum í Bjarkarlundi og á Patreksfirði að ég vildi taka tillit til þessa - þótt sjálfur væri ég annarrar skoðunar - og fara þess á leit við Vegagerðina að gerðar verði jarðfræðirannsóknir í Hjallahálsi með það fyrir augum að meta hagkvæmni ganga og kostnað við mannvirkið. Með því að fara í gegnum Hjallaháls fengjum við láglendisveg. Aðrar láglendisleiðir væru einnig mögulegar, sagði ég, en þar gæti umhverfismat reynst erfitt.

Öllu þessu greindi ég frá á fyrrnefndum fundum og taldi að þannig væri umræðan að þróast áfram. Það töldu fundarmenn á Patreksfirði ekki og gengu út eins og fyrr segir og nú les ég um það í blöðum og heyri í ljósvakanum haldið fram að ég sé ekki til viðtals um annað en að við höldum okkar ofan á hálsunum. Svona vill henda þegar fólk talar ekki saman. Þess vegna held ég mig við þá skoðun að samræða sé betri en samræðuleysi.  

 tekið af: ogmundur.is

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón