A A A

Truflun á áætlun ferjunnar Baldurs í september

Eins og kunnugt er hafa Sæferðir unnið að því í um eitt ár að finna ferju til að endurnýja núverandi ferju, Baldur.  Eftir mikla vinnu og eftirgrennslan tókst loks að finna norska ferju sem hentar vel. Um er að ræða nokkru stærra skip en Baldur og nemur aukningin í bílaplássi um 40 – 45%. Auk þess er skipið með alveg lokað bílaþilfar og er lofthæð þilfarsins yfir 4,5 metrar.

Skipið hefur verið í siglingum í Lofoten í N-Noregi um árabil og uppfyllir kvaðalaust allar norskar reglur varðandi siglingar á svokölluðu „C“ svæði, sem er það sama og Breiðafjörður flokkast undir sem og samræmdar Evrópureglur sem eru þær sömu og hér á landi og íslensk siglingayfirvöld miða sig almennt við og fara eftir. Búið var að semja um kaupverð skipsins, fjármagna kaupin og semja um afhendingu í lok júlí s.l. Í framhaldi var samið um sölu á Baldri miðað við að nýja skipið hæfi siglingar á Breiðafirði 6. September n.k. en samið hafði verið við Vegagerðina um að Baldur færi þá til Vestmannaeyja til að leysa Herjólf af í 3 til 4 vikur. Um þetta voru gerðir fastir dagsettir samningar, enda átti tíminn að vera nægur til að fá staðfest innflutningsleyfi á ferjuna frá Noregi.
 

Nú gerist það hins vegar, að eftir um 8 vikur frá því að íslensk siglingar yfirvöld skoðuðu ferjuna sem Sæferðir hyggjast kaupa frá Noregi, og gáfu henni góð meðmæli, að innflutningsleyfi fyrir skipinu hefur ekki ennþá fengist. Eins og fyrr segir uppfyllir skipið allar norskar og evrópskar reglur og þar með taldar íslenskar reglur. En siglingayfirvöld beita fyrir sig, að mati Sæferða og lögmanna félagsins, óljósum hindrunum á innflutningi skipsins. Ágreiningur er því á milli Sæferða og siglingayfirvalda um túlkun regluverksins.  Óskað hefur verið eftir úrskurði Innanríkisráðuneytisins í málinu en því miður er ljóst að þessi töf mun valda því að ekki tekst að koma norsku ferjunni í áætlun á tilsettum tíma. Vonast er samt eftir, að einungis fárra daga töf verði á afgreiðslu málsins. Samt sem áður er ljóst að fella verður niður siglingar yfir Breiðafjörð í nokkra daga,  þar sem útgerðin er bundin af samningi sínum við Vegagerðina um leigu á Baldri vegna afleysinga fyrir Herjólf frá 6. september.
 

Vonir okkar standa til að  ferjusiglingar yfir Breiðafjörð falli að hámarki niður í ca. eina viku og að norska ferjan verði komin í áætlun fyrir miðjan september. Ferðir yfir fjörðinn falla því niður frá og með 6. september, nema siglingar í Flatey sem verða 3 ferðir í viku á skoðunarferðaskipinu Særúnu. (Nánar í afgreiðslu 433 2254 og seatours@seatours.is)
 

Allar nánari upplýsingar um þessi mál veitir Pétur Ágústsson, í síma 864 8865
eða Páll kr. Pálsson, stjórnarformaður Sæferða,  í síma 820 1030 

Fréttatilkynning tekin af síðu Sæferða, saeferdir.is

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón