A A A

Bók um Gísla á Uppsölum kemur út í dag

Bókakápan og rithöfundurinn.
Bókakápan og rithöfundurinn.

„Ég heillaðist af Gísla ellefu ára gömul þegar ég horfði á Stiklur í sjónvarpinu. Hann náði til allra kynslóða og það voru allir að tala um hann,“ segir Ingibjörg Reynisdóttir rithöfundur og leikkona, en hún gefur í dag út bók um lífsöngu Gísla á Uppsölum. Bókin nefnist einfaldlega „Gísli á Uppsölum“, en hún er í grunnatriðum byggð á heimildum þótt höfundur taki sér skáldaleyfi stöku sinnum. Ingibjörg segir hugmyndina að bókinni hafa kviknað þegar hún tók að segja syni sínum sögur af Gísla.

„Ég var að svæfa strákinn minn fyrir nokkrum árum og blöskraði draslinu í herberginu hans og velti því fyrir mér hvers vegna svona lítil viðring er borin fyrir hlutum í dag,“ segir hún, aðspurð um hvers vegna hún hafi ákveðið að skrifa bók um Gísla. „Þá hugsaði ég um Gísla, sem átti svo lítið en hafði í raun allt. Einhverjum dögum síðar biður svo sonur minn um að segja sér fleiri sögur af Gísla.“

Ingibjörg segir að bókinni hafi upphaflega verið ætlað að vera barnabók en hafi þróast í að vera bók fyrir alla aldurshópa. Ljóðum Gísla og einstaka hugrenningum er fléttað inn í söguna þegar þau eiga við, en ljóð hans og hugrenningar komu út í litlu bókakveri árið 1987, ári eftir andlát Gísla.

Í kvöld verður Ingibjörg ásamt Ómari Ragnarssyni í Kastljósinu í Ríkissjónvarpinu í tilefni af útgáfu bókarinnar, og vegna þess að Gísli hefði í dag orðið 105 ára gamall. „Ég vildi halda mig við þennan útgáfudag, honum til heiðurs,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg verður á ferð og flugi næstu daga vegna útgáfunnar. Hún mun halda bókakynningu sunnadaginn næsta í Eymundsson á Akureyri og á Ísafirði næstkomandi mánudag, einnig í Eymundsson milli klukkan 16 og 18. Ingibjörg verður loks með kynningu í Sjóræningjasetrinu á Patreksfirði þriðjudagskvöldið 6. nóvember.

Frétt tekin af: bb.is

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón