A A A

Bókun Sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps um lokun starfsstöðvar Landsbankans á Tálknafirði

Vakin er athygli á eftirfarandi bókun Sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem gerð var á fundi fimmtudaginn 28.05.2015. Fjallað var um lokun starfsstöðvar Landsbankans á Tálknafirði.

 

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps mótmælir harðlega lokun útibús Landsbankans á Tálknafirði og vill minna stjórn Landsbankans á þau orð sem voru látin falla á fundi sem haldinn var á Patreksfirði fyrir ári síðan. Þá lýsti stjórn og bankastjóri yfir fullum vilja til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er í gangi hér í Tálknafirði.

Ljóst er að á meðan Landsbankinn lokar afgreiðslunni í nafni hagræðingar þá er verið skerða þjónustu og lífsgæði íbúanna á staðnum sem margir hverjir eru háðir því að þjónustan sé fyrir hendi. Þá eru það í meira lagi undarleg rök að lokunin sé gerð í hagræðingarskyni á sama tíma og bankinn skilar methagnaði ár eftir ár og greiðir milljarða í arð til ríkisins. Bankinn hefur ekki fært nein rök fyrir því að kostnaður við rekstur útibús á Tálknafirði sé umfram veltutekjur og þjónustugjöld viðskiptavina sinna á staðnum.

Með lokun útibús Landsbankans á staðnum hefur verið vegið að menntastörfum í firðinum og er það undarleg ákvörðun af hálfu ríkisfyrirtækis þar sem það er yfirlýst byggðastefna ríkistjórnarinnar að fjölga opinberum menntastörfum á landsbyggðinni.

Þá mun Tálknafjarðarhreppur leita allra leiða til þess að verja það þjónustu- og menntastig sem hefur verið í firðinum með hvaða móti sem er, þar sem auðsýnt er að þörfin er til staðar og mun einungis aukast með auknum umsvifum á svæðinu.“

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón