A A A

Hafið, fjaran og fólkið

Málþing sem kallast Hafið, fjaran og fólkið verður haldið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða að Suðurgötu 12 á Ísafirði laugardaginn 19. maí, en það fjallar um menningararfleifð, tækifæri og ógnir sjávarbyggða. Að þinginu standa Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Íslenska vitafélagið - félag um íslenska strandmenningu, og samevrópska verkefnið Fishernet fyrir hönd Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar í samstarfi við Byggðasafn Vestfjarða og Háskólasetur Vestfjarða.

Málþingið hefst kl. 13.30 á erindinu Auður við íslenska strönd sem er kynning á Íslenska vitafélaginu - félagi um íslenska strandmenningu og verkefninu Fishernet. Erindið flytur Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Íslenska vitafélagsins og verkefnastjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Þá fjallar Ragnar Edvardsson hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum um strand- og neðansjávarminjar við Vestfirði. Rúnar Óli Karlsson hjá Borea Adventures flytur erindið Ævintýralandið - ströndin.

„Fólk, framsal, fiskveiðiréttindi og fjármálaafurðir. Eru tilraunir með fiskveiðistjórnun í anda frjálshyggjunnar óafturkræfar?“ kallast erindi sem dr. Níels Einarsson forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar flytur. Síðasta erindið kallast Sóknin í norður - áhætta, öryggi og aðlögun sjávarbyggða vegna veðurfarsbreytinga og aukinnar skipaumferðar. Það flytur Embla Eir Oddsdóttir, settur framkvæmdastjóri Rannsóknaþings norðursins og verkefnastjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Fundarstjóri verður Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri.

Að loknum fundi er fundargestum boðið í klukkustundar siglingu með eikarbátnum Húna II sem er gerður út frá Akureyri af Hollvinafélagi Húna. Báturinn verður á Ísafirði frá 16. til 20. maí.

Frétt tekin af bb.is


« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón