A A A

Háskólalestin heldur í langferð um landið

Háskólalest Háskóla Íslands rennur af stað í næstu viku og kemur við á þremur áfangastöðum á landsbyggðinni í maímánuði. Þetta er þriðja árið sem lestin fer um landið með fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa og fyrsti áfangastaðurinn að þessu sinni er Vesturbyggð.
 

Háskólalestinni var fyrst hleypt af stokkunum á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Þá var tímamótunum fagnað með viðamikilli vísindadagskrá á níu stöðum á landinu og voru viðtökurnar með eindæmum góðar. Lestin heimsótti fjóra staði í fyrra og lagði sem fyrr áherslu á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
 

Áfangastaðirnir í maímánuði eru Vesturbyggð, Sauðárkrókur og Fjarðabyggð og nemur lestin staðar í tvo daga á hverjum stað. Fyrri daginn verður boðið upp á valin námskeið í Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og þann seinni er blásið til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í samstafi við heimamenn.
 

Vísindaveisla í Vesturbyggð
Fyrsti áfangastaður Háskólalestarinnar í ár er Vesturbyggð á Vestfjörðum. Föstudaginn 10. maí sækja nemendur eldri deilda Grunnskóla Vesturbyggðar og Grunnskóla Tálknafjarðar námskeið í Háskóla unga fólksins í efnafræði, jarðfræði, stjörnufræði, japönsku, hugmyndasögu og Vísindavefnum.

Laugardaginn 11. maí verður slegið upp veglegri vísindaveislu í Félagsheimili Patreksfjarðar kl. 12-16. Þar verður m.a. boðið upp á eldorgel og sýnitilraunir, fræðslu um japanska menningu og sögu hugmynda, leiki og þrautir og ýmis tæki og tól, eins og teiknirólu, furðuspegla og snúningshjól.

Sprengjugengið landsfræga er með í för og sýnir kl. 12.30 og 14.30 en sýningar verða í hinu sívinsæla stjörnutjaldi á 20 mínútna fresti. Matís, Náttúrustofa Vestfjarða á Patreksfirði og fleiri stofnanir á svæðinu taka að auki þátt í veislunni.

Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.


Áætlun Háskólalestarinnar vorið 2013:
10. og 11. maí – Vesturbyggð
17. og 18. maí – Sauðárkrókur
24. og 25. maí – Fjarðabyggð

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og á Facebook


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón