A A A

Niðurstaða valkostargreiningar sameiningarkosta

Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku var skýrsla RR-ráðgjafar vegna vinnu við valkostagreiningu sameiningarkosta Tálknafjarðarhrepps lögð fram. Skýrslan er aðgengileg hér.

 

Á fundinum bókaði sveitarstjórn þakkir til starfmanna RR-ráðgjafar og starfsmanna Tálknafjarðarhrepps sem og þeirra fjölmörgu íbúa sem þátt í íbúafundi fyrir samstarfið í vinnunni við valkostagreininguna.

 

Vegna vinnu við valkostagreininguna var myndaður verkefnishópur sem vann að verkefninu í virku samráði við starfsfólk Tálknafjarðarhrepps og íbúa. Verkefnishópurinn lagði mat á mismunandi valkosti og ákvað að kynna fimm þeirra á íbúafundi. Afgerandi meirihluti þátttakenda á íbúafundi sagðist vilja að Tálknafjarðarhreppur hefji sameiningarviðræður.

 

Í nýlega samþykktum breytingum á sveitarstjórnarlögum er stefnt að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags verði ekki undir 1.000 íbúum eftir sveitarstjórnarkosningar 2026, eða 250 íbúum frá sveitarstjórnarkosningum 2022.

 

Í ljósi ábendinga sem fram komu á íbúafundi og samskipta kjörinna fulltrúa við fulltrúa annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum telur sveitarstjórn eðlilegt að leita eftir afstöðu þeirra sveitarfélaga sem eru líkleg til að þurfa að taka tillit til nýrra ákvæða sveitarstjórnarlaga fyrir árið 2026, þ.e. Árneshrepps, Bolungarvíkurkaupstaðar, Kaldrananeshrepps, Reykhólahrepps, Strandabyggðar, Súðavíkurhrepps og Vesturbyggðar.

 

Sameinist þessi sveitarfélög í eitt verður til rúmlega 3.300 íbúa sveitarfélag með nokkra byggðakjarna, sem hefur betri forsendur til að berjast fyrir hagsmunum íbúa og takast á við krefjandi verkefni. Að mati sveitarstjórnar eru forsendur þess að landstórt sveitarfélag með fjölda byggðakjarna geti orðið sterk eining að settar verði á fót heimastjórnir á sambærilegum forsendum og í Múlaþingi.

 

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að fela sveitarstjóra að senda ofangreindum sveitarfélögum erindi og óska eftir afstöðu sveitarstjórna til þess að hefja óformlegar viðræður sveitarfélaganna.

 

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón