A A A

Plastpokalausir sunnanverðir Vestfirðir

Eva Dögg og Andrés Páll
Eva Dögg og Andrés Páll

Í dag byrjuðu verslanir á sunnanverðum Vestfjörðum að bjóða upp á margnota poka til láns í sínum verslunum.
 

Á Tálknafirði voru saumaðir 64 taupokar sem verða til láns í versluninni Hjá Jóhönnu. Eva Dögg, oddviti og saumari afhenti pokana í dag fyrir hönd þeirra sem stóðu að saumaskapnum en Andrés Páll stóð vaktina með móður sinni í versluninni og tók á móti þeim með bros á vör. Andrés tók einnig þátt í saumaskapnum og kunni alveg eitthvað á saumavélina hennar móður sinnar að eigin sögn, þó hún væri alveg eldgömul eins og hann orðaði það. Þess má geta að allir kjarnar grunnskóladeildar Tálknafjarðarskóla eru þessa dagana að sauma fleiri poka en þeir verða afhentir í verslunina í næstu viku.
 
Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni sem hefur verið nefnt Boomerang og gengur út á að minnka plastpokanotkun í heiminum. Nú geta viðskiptavinir fengið poka að láni í stað þess að kaupa plastpoka. Margir eiga sína eigin poka og koma með þá að heiman og er það best. Ef taupokinn gleymist heima er hægt að fá lánaðan taupoka í stað þess að kaupa plastpoka. Boomerang er alþjóðlegt verkefni þannig að það má skila pokunum aftur hér á landi á merktri Boomerang pokastöð og erlendis.
 

Þær verslanir sem eru með í þessu verkefni eru:
Hjá Jóhönnu
Fjölval
Albína
Gillagrill
Vegamót
Logi
Vöruafgreiðslan
Lyfja
Pósthúsið
Bókasafnið Patreksfirði
 

Lauslega er áætlað að þessar verslanir selji um 70.000 plastpoka á ári. Miðað við 500 heimili þá eru það 140 pokar á hvert heimili.
 

Allir pokarnir voru unnir úr efni sem var fáanlegt á svæðinu og hafa verið saumaðir rúmlega 500 pokar fyrir svæðið.

Áætlað er að halda saumaskapnum áfram ef þarf, hist hefur verið í Húsinu á Patreksfirði, Vindheimum á Tálknafirði og Læk á Bíldudal. Það er því ekki of seint að koma og vera með, læra að gera poka eða fylgjast með framleiðslunni.
 

Við þökkum öllum kærlega fyrir sem gáfu tíma sinn, efni og þolinmæði í þessa vinnu og ekki síður verslunareigendum fyrir að taka verkefninu vel. Saman minnkum við plastnotkun.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón