A A A

„Pólitískar úthlutanir varhugaverðar“

„Ef þessi áform um veiðigjald ná fram að ganga munu margar útgerðir geispa golunni, þetta er tómt rugl. Gjaldið bitnar líklega harðast í einyrkum og minni fyrirtækjum í greininni, flest fyrirtæki hérna fyrir vestan þola örugglega ekki svona gríðarlega skattlagningu eins og lagt er til. Mörg þeirra eru ákaflega skuldsett, eftir að hafa keypt veiðiheimildir og fjárfest i vinnslutækni. Þær skuldir hafa hækkað mikið eftir hrun, þannig að reksturinn er víðast hvar í járnum,“ segir Guðjón Indriðason framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Þórsbergs á Tálknafirði.
Hjá fyrirtækinu starfa 65 manns, þannig að Þórsberg er burðarás atvinnulífsins á staðnum. Þórsberg rekur landvinnslu og gerir út þrjá línuveiðibáta yfir vetrartímann og á sumrin kaupir fyrirtækið afla strandveiðibáta. Guðjón segir að sátt verði að ríkja um starfsemi greinarinnar.

Takmörkuð þekking

„Þeir sem reka fyrirtæki verða að geta gert raunhæfar áætlanir og þá verða línur að vera nokkuð skýrar. Það er engu líkara en að þau sem sömdu frumvörpin sem nú liggja fyrir hafi mjög takmarkaða vitneskju um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Kannski væri bara best að skipta okkur sem höfum rekið slík fyrirtæki alveg út og láta sérfræðingana sýna hvernig á að reka sjávarútveginn, þannig að hann standi undir allri þessari skattlagningu. En svona í alvöru, þá verður að vera hægt að endurnýja tæki og tól. Eðlileg skattlagning er sjálfsögð, en að ríkið ætli sér að taka 70 % af hagnaðinum nær engri átt.“

Pólitískar úthlutanir varhugaverðar

Guðjón segir að nú eigi greinilega að hverfa frá kröfum um hagkvæmni í sjávarútvgi, færa eigi arðinn af greininni frá landsbyggðinni til pólitískrar úthlutunar fyrir sunnan.
„Byggðakvótinn á rétt á sér upp að vissu marki. Hins vegar hefur víðast hvar verið harkalega deilt um þessa byggðapotta. Byggðaaðgerðirnar hafa ekki alltaf náð þeim markmiðum sem stefnt hefur verið að, heldur öfugt. Sem betur fer hefur okkur á Tálknafirði tekist að skipta byggðakvótanum í sátt, en sömu sögu er ekki hægt að segja um marga aðra staði. Auknar pólitískar úthlutanir eru mjög varhugaverðar og geta hæglega dregið úr hvata til hagkvæmra veiða,“ segir Guðjón Indriðason á Tálknafirði.

Frétt tekin af bb.is

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Næstu atburðir
Vefumsjón