A A A

Safnasafnið hlýtur Eyrarrósina 2012

Magnhildur Sigurðardóttir og Níels Hafstein taka við verðlaununum úr hendi Dorritar Moussaieff á Bessastöðum.
Magnhildur Sigurðardóttir og Níels Hafstein taka við verðlaununum úr hendi Dorritar Moussaieff á Bessastöðum.
1 af 4

Eyrarrósina 2012, viðurkenningu fyrir afburða menningarverkefni á landsbyggðinni, hlýtur Safnasafnið á Svalbarðsströnd og veittu aðstandendur þess viðurkenningunni móttöku í dag laugardag við athöfn á Bessastöðum.
 

Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar afhenti verðlaunin.  Fjölmennt var við athöfnina en auk afhendingarinnar kynnti Hrefna Haraldsdóttir stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík Eyrarrósina og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði samkomuna. Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson sungu einnig nokkur lög við góðar undirtektir gesta.
 

Verðlaunin sem Safnasafnið hlýtur ásamt Eyrarrós í hnappagatið er fjárstyrkur að upphæð 1,5 milljón, verðlaunagripur eftir Steinunni Þórarinsdóttur auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands. Önnur tilnefnd verkefni í ár voru Sjóræningjahúsið á Vatneyri við Patreksfjörð og tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði og þau hljóta 250 þúsund króna verðlaun auk flugmiða.
 

Handhafi Eyrarrósarinnar, Safnasafnið – Alþýðulistasafn Íslands, stendur við þjóðveg eitt rétt utan við Akureyri, í gamla Þinghúsinu á Svalbarðsströnd. Safnið opnaði árið 1995 og vinnur merkilegt frumkvöðlastarf í þágu íslenskrar alþýðulistar. Safnið hefur fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og sérstöðu í safnaflóru landsins og sýningar þess byggja á nýstárlegri hugsun þar sem alþýðulist og nútímalist mynda fagurfræðilegt samspil. Í sölum Safnasafnsins sýna hlið við hlið frumlegir og ögrandi nútímalistamenn, sjálflærðir alþýðulistamenn, einfarar og börn. Samspil heimilis, garðs, safns og sýningarsala er einstakt og sífellt er bryddað upp á nýjungum. Safnasafnið vinnur ötullega með íbúum sveitarfélagsins og hefur frá upphafi haft frumkvæði að samstarfi við leikskóla- og grunnskólabörn.   
 

Við athöfnina í dag tilkynnti Hrefna Haraldsdóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík að samningur aðstandenda Eyrarrósarinnar; Listahátíðar, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands, yrði endurnýjaður til næstu þriggja ára, enda mikil ánægja aðstandenda með verkefnið frá upphafi.

Metfjöldi umsókna var um Eyrarrósina í ár, en árlega er auglýst eftir umsóknum í fjölmiðlum og eru umsækjendur m.a. ýmis tímabundin verkefni, menningarhátíðir, stofnanir og söfn. Fjögurra manna verkefnisstjórn, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðastofnunar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefnir og velur verðlaunahafa.
 

Verðlaunin hafa allt frá stofnun árið 2005 átt þátt í því að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni og skapað sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Verðlaunin eru gríðarlega mikilvæg enda um veglega upphæð að ræða, en tilnefning til Eyrarrósar er einnig mikilsverður gæðastimpill fyrir þau afburða menningarverkefni sem hann hljóta. 

« Febrúar »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29    
Næstu atburðir
Vefumsjón