A A A

Stærsta sjómannadagshátíð landsins

Undirbúningur fyrir dagskrá sjómannadagsins á Patreksfirði er á fullu enda í nógu að snúast fyrir hátíð sem stendur yfir í fimm daga. Að sögn hátíðarhaldara er um að ræða stærstu hátíð sjómannadagsins á Íslandi og hefur svo verið í fjölda ára. Þá hafa atvinnurekendur í Vesturbyggð mjög gjarnan gefið frí á mánudeginum en hátíðarhöldunum lýkur með dansleik í félagsheimilinu skömmu fyrir miðnætti á sjálfum sjómannadeginum þar sem hljómsveitin Glæstar vonir leika fyrir dansi.

Hátíðin byrjar á fimmtudag með Skútuhlaupinu, sem er víðavangshlaup fyrir börn og fullorðna, og sýningu á vestfirsku draugamyndinni Glámu í Skjaldborgarbíói. Á föstudag verður ýmislegt í boði og má þar nefna firmakeppni í fótbolta þar sem keppt verður um hinn margrómaða „Thorlacius Cup“ á íþróttavellinum, sæmarksmótið í golfi í Vesturbotni og ljósmynda- og leirlistasýningu í Safnaðarheimili Patreksfjarðarkirkju. Þá sýnir leikhópurinn Lotta Stígvélaða köttinn.

Dagskráin nær flugi á laugardag en þá verður meðal annars rölt um þorpið með leiðsögn staðkunnugra, efnt til dorgveiðikeppni á bryggjunni og boðið upp á skemmtun á hátíðarsvæðinu í Krók. Bifhjólaklúbburinn Þeysir verður með sýningu á Eyrargötu og börnum verður boðið í ökuferð. Kl. 17:30 verður síðan haldið í hátíðarsiglingu báta um fjörðinn áður en Geirseyringar mæta við kirkjuna og Vatneyringar á Straumnesplani og ganga fylktu liði á Friðþjófstorg þar sem slegið verður upp svokallaðri landleguhátíð. Að henni lokinni verður boðið upp á stórdansleik þar sem einn ástsælasti söngvari landsins, Björgvin Halldórsson, og hinir vinsælu Ingó og Veðurguðirnir, halda uppi stuðinu.
 
Á sunnudag verður nokkuð hefðbundin dagskrá þar sem blóm lögð að minnisvarða látinna sjómanna áður en farið verður í skrúðgöngu til kirkju þar sem sjómannamessa fer fram. Kl. 14 verður síðan skemmtidagskrá á hafnarsvæðinu þar sem Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður flytur hátíðarræðu. Þar fer einnig fram lokaþraut í kraftakeppni sem hófst daginn áður, slegið verður upp markaðstorgi og margar aðrar skemmtilegar uppákomur.

Sjómannadagurinn Patreksfirði - Dagskrá 2012 (.pdf)

Frétt tekin af bb.is

« Febrúar »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29    
Næstu atburðir
Vefumsjón