A A A

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði.  Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.  Með börnum er átt við einstaklinga innan 18 ára aldurs. Þjónustan er í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 og önnur lög, eftir því sem við á hverju sinni. Sameiginleg barnaverndranefnd er fyrir Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. 

Hlutverk barnaverndarnefnda

  • Eftirlit. Barnaverndarnefndir hafa þær skyldur að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.
  • Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt barnaverndarlögum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.
  • Önnur verkefni. Barnaverndarnefndir hafa með höndum önnur þau verkefni sem þeim getið er um í barnaverndarlögum og öðrum lögum. Sveitastjórn getur falið barnaverndarnefndum frekari verkefni sem varða aðstæður barna og ungmenna í umdæmi hennar.

Barnaverndarnefndum er skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga ef þess er þörf. 


Tilkynningarskylda 
Almenningi er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef ástæða er talin til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Tilkynningum má koma á framfæri í gegnum 112 eða í barnaverndarsíma Vesturbyggðar 868-2963. 
Almenningur getur óskað nafnleyndar. 

Útivistarreglur
Útivistarreglur eru settar til þess að vernda börn og ungmenni. Þar segir að börn, 12 ára og yngri, megi ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, nema þau séu á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldursmörkin miðast við fæðingarár. 

Á tímabilinu frá 1. maí til 1. september lengist útivistartíminn um tvær klukkustundir. Gott samstarf er við lögreglu. 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Næstu atburðir
Vefumsjón